Viðurkenningar veittar fyrir góðan árangur 2022

Viðurkenningar veittar fyrir góðan árangur 2022

Í gær fór fram aðalfundur UMF Stjörnunnar í hátíðarsal félagsins. Á fundinum voru veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur bæði innan sem utan vallar á árinu 2022. Eftirfarandi aðilar hlutu viðurkenningar: 

Íþróttamaður ársins 2022 - Ásta Kristinsdóttir

Ásta Kristinsdóttir varð Íslands- og bikarmeistari í hópfimleikum með kvennaliði Stjörnunnar. Ásta er einn af lykilmönnum liðsins; er í öllum sex stökkumferðunum og með hæsta erfiðleika í öllum stökkum. Einnig sýndi hún glæsilega frammistöðu á dansgólfinu. Ásta var einnig lykilmanneskja í kvennalandsliðinu á Evrópumótinu í hópfimleikum í september 2022. Hún var ein af sex konum sem valdar voru í úrvalslið mótsins (e. All Star) fyrir frammistöðu sína á dýnu á mótinu. Núna í desember keppti Ásta á alþjóðlegu móti sem nefnist ,,Face off“ þar sem keppt er í mismunandi þrautum og er markmiðið að lenda stökk með hæstan erfiðleika með ákveðinni uppsetningu. Í ár var í fyrsta sinn keppt í kvennaflokki og varð Ásta fyrst kvenna til að vinna þann flokk. Hún er fyrirmyndarafrekskona í fimleikum og sýnir mikinn metnað til að ná árangri í íþróttinni. Ásta var á dögunum útnefnd í 2.—3. sæti sem fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

 

Þjálfari ársins 2022

Kristján Guðmundsson tók við liði Stjörnunnar í október 2018. Kristján býr yfir mikilli reynslu í þjálfun og undir hans stjórn hefur liðið tekið miklum framförum. Liðið hefur bætt árangur sinn á hverju ári og árið 2022 náði liðið að tryggja sér 2. Sæti í Bestu deildinni sem gaf þeim rétt til þátttöku í Evrópukeppni félagsliða árið 2023. 

Lið ársins 2022

Lið meistaraflokks kvenna í knattspyrnu tryggði sér 2. sætið í Bestu deild kvenna á árinu 2022. Sá árangur gefur liðinu keppnisrétt í Evrópukeppni félagsliða árið 2023. Hópurinn er mjög samheldinn og hefur liðið tekið miklum framförum á síðustu árum. Kristján Guðmundsson og Andri Freyr Hafsteinsson eiga hrós skilið fyrir sín störf; þeir hafa náð að setja saman sérlega metnaðarfullan hóp. Það verður gaman fyrir stuðningsmenn Stjörnunnar að fylgjast með liðinu á næstu árum.

 

Deild ársins 2022

Fimleikadeild Stjörnunnar fær nafnbótina „Deild ársins 2022“. Meistaraflokkur kvenna hlaut Íslands- og bikarmeistaratitil á árinu. Meistaraflokkur karla vann einnig báða titla sem í boði voru en Stjarnan er jafnframt eina félagið sem heldur úti öflugu meistaraflokksstarfi í karlaflokki á landinu. Lið meistaraflokks karla í Stjörnunni er því uppistaðan í landsliði okkar Íslendinga í hópfimleikum karla en þeir náðu 4. sæti á EM í hópfimleikum árið 2022. Í áhaldafimleikum urðu Stjörnustúlkur Íslandsmeistarar í 1., 2. og 3. þrepi. Barna- og unglingastarf deildarinnar er í miklum blóma og komast færri að en vilja til að iðka íþróttina undir merkjum Stjörnunnar. 



Stjarnan óskar öllum innilega til hamingju! 

Skíni Stjarnan 

Til baka í blogg