Þjálfarar ársins 2022 í Garðabæ eru þau Siggeir Magnússon handboltaþjálfari í Stjörnunni og Auður Íris Ólafsdóttir körfuboltaþjálfari hjá Stjörnunni og eru þau bæði sannarlega vel að titlinum komin.
Mynd: Garðapósturinn
Frétt: Af vefsíðu Garðabæjar
Siggeir Magnússon, handboltaþjálfari Stjörnunni
Siggeir hefur þjálfað hjá handboltanum í mörg ár ásamt því að sjá um boltaskóla handboltans sem nýtur gríðarlega vinsælda hjá íbúum Garðabæjar. Námskeiðin í boltaskólanum sem hann og kona hans Guðný Gunnsteinsdóttir sjá um á laugardagsmorgnum eru alltaf uppseld og segir það margt um fagmennskuna.
Á þessu tímabili þjálfar Siggeir 9. flokk kk/kvk ásamt því að vera þjálfari 8. flokks kvenna. Allur undirbúningur, stjórnun æfinga ásamt áhuga hans á þjálfun er til fyrirmyndar enda er hann menntaður íþróttakennari með marga ára reynslu varðandi kennslu og þjálfun.
Það hefur verið mikið happ fyrir handboltann í Stjörnunni að hafa Siggeir í sínum röðum.
Auður Íris Ólafsdóttir, körfuboltaþjálfari Stjörnunni
Mikill uppgangur hefur verið í kvennakörfunni hjá Stjörnunni og á síðasta ári unnust fjölmargir titlar hjá yngri flokkum félagsins. Auður stýrði stúlknaflokki til úrslita í bikarkeppni ásamt því að vera hluti af þjálfarateymi 9. og 10. flokks sem unnu þrjá titla á síðasta tímabili.
Hún er þjálfari meistaraflokks kvenna og hefur hún leitt uppbyggingu flokksins hjá Stjörnunni sem nú um mundir sitja einar taplausar á toppi 1. deildarinnar.
Ásamt því að þjálfa meistaraflokk þjálfar Auður 9., 10. og 11. flokk kvenna og eru öll þau lið í toppbaráttu í sínum flokki. 10. fl. stelpurnar hafa nú unnið sér inn þátttökurétt í bikarúrslitunum og gætu fleiri bæst í hópinn. Auður er einn efnilegasti þjálfari landsins. Hún er góð fyrirmynd fyrir aðra þjálfara félagsins.