Ísold og Friðbjörn eru íþróttafólk Garðabæjar 2023

Ísold og Friðbjörn eru íþróttafólk Garðabæjar 2023

Þessi frétt er af heimasíðu Garðabæjar www.gardabaer.is

Það var líf og fjör í Miðgarði í dag þegar íþróttafólk Garðabæjar kom saman og fagnaði árangri ársins 2023. 

Friðbjörn og Ísold eru framúrskarandi íþróttafólk. Mynd: Garðapósturinn

Íþróttafólk Garðabæjar árið 2023 eru þau Ísold Sævarsdóttir frjálsíþrótta- og körfuboltakona og Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður Stjörnunni

Tilkynnt var um kjör þeirra á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram í dag, sunnudaginn 7. janúar í Miðgarði.

Hrannar Bragi Eyjólfsson formaður ÍTG, íþróttafólkið frábæra þau Friðbjörn Bragi og Ísold, ásamt Almari bæjarstjóra Garðabæjar. Mynd: Garðapósturinn

Íþróttakarl Garðabæjar 2023 er Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður Stjörnunni

 Friðbjörn Bragi Hlynsson æfir klassískar kraftlyftingar hjá lyftingadeild Stjörnunnar. Friðbjörn keppir í -83kg flokki karla og hefur síðastliðin ár verið með stigahæstu keppendum í greininni. Friðbjörn kláraði keppnisárið 2023 með Íslandsmet í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðu og er bikarmeistari í klassískum kraftlyftingum hjá Kraftlyftingasambandi Íslands. Friðbjörn tók þátt fyrir Íslands hönd á tveimur mótum á árinu, Vestur-Evrópumótinu og Evrópumeistaramótinu. Hann gerði gott mót á báðum stöðum, vann sinn flokk á Vestur-Evrópumótinu og tók 11. sætið í mjög sterkum flokki á Evrópumeistaramótinu. Friðbjörn er fjölskyldumaður, menntaður íþróttafræðingur og kennir íþróttir á grunnskólastigi. Hann er deildinni og íþróttinni til mikils sóma og er það samróma álit allra sem kynnast honum að þarna er drengur góður á ferð.

 

Íþróttakona Garðabæjar 2023 er Ísold Sævarsdóttir frjálsíþrótta- og körfuboltakona

Ísold Sævarsdóttir var fyrirliði meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni sem vann 1. deildina í körfubolta í vor ásamt því að vinna fjölmarga titla í yngri flokkunum. Ísold var valin varnarmaður ársins í 1. deild kvenna. Einnig lék hún stórt hlutverk í góðum árangri U16 ára landsliði stúlkna sem náði besta árangri kvennaliðs í langan tíma á EM í Svartfjallalandi í sumar. Ísold hefur byrjað tímabilið frábærlega í Subway deildinni og toppaði svo árið með því að spila sína fyrstu A-landsleiki í körfubolta þar sem hún var í stóru hlutverki í leikjum á móti Tyrklandi og Rúmeníu.

Ísold er mjög fjölhæf frjálsíþróttakona þar sem hún keppir með FH. Hún náði þeim frábæra árangri að vinna gull á NM U18 í sjöþraut síðastliðið sumar þó hún sé aðeins 16 ára. Ísold er meðal bestu kvenna á afrekskrá FRÍ fullorðinna í mörgum greinum. Hér er talinn upp árangur hennar í frjálsum og staða á afrekslista FRÍ 2023; 400 m (1. sæti) 56,51 sek innanhúss og 57,46 sek utanhúss, í 400 m grindahlaupi (2. sæti) á 61,07 sek, fimmtarþraut innanhúss (1. sæti) með 3786 stig og í sjöþraut utanhúss (1. sæti) með 5277 stig.

 

Til baka í blogg