BARNA- OG UNGLINGASTARF KNATTSPYRNUDEILDAR
Barna- og unglingastarf knattspyrnudeildar Stjörnunnar er eitt það fjölmennasta á landinu með u.þ.b. 1.000 iðkendur í 2. til 8. flokki drengja og stúlkna. Við erum afar stolt af starfinu og okkar faglegu þjálfurum sem hafa ýmist lokið UEFA-A eða UEFA-B gráðu frá KSÍ eða eru í því ferli að klára gráðurnar.
Þjálfararnir eru afar reynslumiklir í bland við framtíðar þjálfara sem eru að taka sín fyrstu skref í þjálfun. Starfið okkar er leitt af Páli Árnasyni og Andra Frey Hafsteinssyni sem eru báðir yfirþjálfarar allra flokka deildarinnar.
Keppnis- og æfingaaðstaða deildarinnar er á Samsungvellinum og völlum í kringum hann, samtals tveir gervigrasvellir í fullri stærð og þrír gervigrasvellir í hálfri stærð sem og Miðgarður í Vetrarmýri sem nýtist afar vel.
Það er skýr metnaður og aðalmarkmið okkar að skapa faglega, jákvæða og uppbyggilega umgjörð fyrir iðkendur okkar til að þroskast, dafna og ná árangri – hver og einn á sínum eigin forsendum. Metnaðurinn liggur einnig í því að byggja upp sterka einstaklinga, sem læra að takast á við krefjandi verkefni, sigra og ósigra og styrkja þannig félagsfærni og gera þeim þannig betur kleift að takast á við aðrar áskoranir í lífinu.
Á vormánuðum höldum við glæsilegt TM-Mót Stjörnunnar þar sem um 3 – 4.000 iðkendur í 6., 7., og 8. flokki drengja og stúlkna mæta til leiks. Mótið er á sama tíma stærsta fjáröflun yngri flokkanna fyrir stóru sumarmótin ár hvert og endurspeglar umgjörð mótsins, sem er í höndum foreldra, frábært foreldrastarf í yngri flokkum deildarinnar.
Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Stjörnunnar