Jafnréttisstefna
stjarnan-header-1

Jafnréttisstefna

Það er stefna UMF Stjörnunnar að vinna gegn því að fordómar, einelti og hvers kyns ójafnrétti þrífist innan félagsins.


Jafnrétti kynja og kynþátta

 

Allir einstaklingar innan UMF Stjörnunnar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði eða kynþætti.

 
Til að stuðla að jafnrétti kynja og kynþátta leggur UMF Stjarnan áherslu á:

• Að jafnréttissjónarmiða sé gætt í hvívetna í starfi félagsins og að hvers kyns kynja- eða kynþáttamismunum verði ekki liðin

• Að veita báðum kynjum tækifæri á að æfa jafn mikið og jafn oft og gera engan greinarmun á drengja- og stúlknaflokkum við útdeilingu æfingatíma

• Að hafa vel menntaða og hæfa þjálfara í öllum flokkum. Gerðar eru sömu ráðningarkröfur til þjálfara drengja- og stúlknaflokka. Sömu laun eru greidd fyrir sambærilega vinnu karla og kvennaflokka

• Að iðkendur, félagsmenn og starfsmenn hafi ekki uppi orð eða athafnir sem líta má á sem kynja- eða kynþáttamisrétti gagnvart öðrum, hvort sem um ræðir einstaklinga eða hópa innan eða utan félagsins. Áhersla er lögð á að iðkendur og aðrir

félagsmenn geri ekki athugasemdir við litarhátt, talsmáta eða annað í fari iðkenda, ættingja þeirra eða keppinauta sem skilja má sem særandi athugasemd um uppruna þeirra

• Að iðkendur og aðrir félagsmenn séu meðvitaðir um menningarmun, hugsanlega vanþekkingu innflytjenda á íslenskum aðstæðum og úrræðaleysi gagnvart þeim

• Að iðkendur og aðrir félagsmenn leggi sig fram um að aðstoða innflytjendur við aðlögun að félagsstarfi UMF Stjörnunnar.

 
Fordómar

Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar, efnahags eða annarra aðstæðna.

Til að koma í veg fyrir fordóma hvetur Stjarnan sína iðkendur til að:
 

• Taka ekki undir með þeim sem lætur í ljós fordóma
• Biðja gerandann um að setja sig í spor þess sem hann fordæmir
• Fræða gerandann
• Koma fram við aðra eins og við viljum að það sé komið fram við okkur
• Muna að þeir standa ekki einir ef þeir verða sjálfir fyrir fordómum. Best er að reyna að finna einhvern sem stendur með sér, veitir stuðning og hægt er að tala við. Það geta verið vinir, foreldrar eða þjálfarinn, einhver sem má treysta

 
Einelti
 
Einelti er að ofsækja einhvern með endurtekinni stríðni, illkvittni og uppnefnum eða með ógnandi, árásargjarnri framkomu og útilokun frá félagsskap.

Til að koma í veg fyrir einelti hvetur Stjarnan sína iðkendur til að:
• Taka ekki þátt í eineltinu
• Biðja gerandann að setja sig í spor þess sem hann leggur í einelti
• Sýna þeim sem verður fyrir eineltinu stuðning með því að ganga til liðs við hann/hana og mótmæla svona framkomu
• Koma fram við aðra eins og við viljum að það sé komið fram við okkur
• Muna að aðgerðarleysi frammi fyrir einelti má túlka þannig að eineltið sé samþykkt
• Muna að þeir standa ekki einir ef þeir verða sjálfir fyrir einelti. Best er að reyna að finna einhvern sem stendur með sér, veitir stuðning og hægt er að tala við. Það geta verið vinir, foreldrar eða þjálfarinn, einhver sem má treysta
 
Stjórn UMF Stjörnunnar væntir þess að allir félagsmenn, ungir sem aldnir leggi sitt að mörkum til að stefna þessi nái fram að ganga.
 
Garðabæ, 15. mars 2007
Aðalstjórn UMF Stjörnunnar
 
 

Iðkendur

SkraIdkanda
felagsgj-509x185
 
 
 
 
 
Gardabaer