Stöðupróf
stjarnan-header-1

Stöðupróf

Grunnhópar stúlkna

 

BYRJENDUR 5-8 ára
Að loknu 1 ári í grunnhópi færast iðkendur í A-hóp sem stendur fyrir áhaldafimleikar (Artistic gymnastics). Eftir 1 ár í grunnhóp eru börnin komin mis langt hvað varðar aukna líkamsmeðvitund, hreyfiþroska, samhæfingu, styrk, liðleika og jafnvægi.

 

Í lok vorannar er haldið æfingamót sem jafnframt er stöðupróf þar sem kunnátta iðkandans er metin. Í prófinu eru notaðar æfingar sem meta getu iðkandans í grunnæfingum fimleika, samhæfingu, styrk, liðleika og jafnvægi. Einkunnarkerfið byggist þannig upp:

4 stig

Fullkomlega framkvæmd æfing

2 stig

Getur æfinguna en vantar 1-2 atriði uppá

0 stig

Getur ekki æfinguna


Grunnæfingar í Fimleikum
Til að meta kunnáttu iðkandans í fimleikum er notast við nokkrar grunnæfingar í fimleikum. Æfingarnar sem þarf að framkvæma er handahlaup með beinar hendur og fætur ásamt því að lenda á fótunum, kollhnís fram og aftur af skáhalla ásamt því að sýna L-handstöðu. L-handstaða er handstaða þar sem fætur eru settir uppá kubb þannig að 900horn myndast í mjöðum og þarf iðkandinn að halda spennu í kvið, baki og öxlum í réttri stöðu.

Samhæfing
Til að skoða samhæfingu iðkandans er hann látinn hlaupa eins hratt og fætur toga (sprettur). Þannig er hægt að sjá samhæfingu fóta og handa.

Einnig er iðkandinn látinn hlaupa og hoppa jafnfætis á stökkbretti uppá lítinn kubb. Þannig er hægt að sjá hvernig iðkandinn tengir nokkrar æfingar saman þar sem hopp á stökkbretti krefst mikillar samhæfingar sem þarf að framkvæma á nákvæmum tímapunkti.

Styrkur
Til að meta styrk iðkandans er meðal annars notast við tvíslánna. Þar er iðkandinn látinn hanga með bognar hendur, kúpt bak og fætur í 90o í 5 sekúndur. Þessi æfing krefst styrks í ýmsum vöðvahópum líkamans samtímis og því góð æfing til að meta styrk viðkomandi. Einnig er iðkandinn látinn sýna fram á að hann geti haldið kúptri stöðu með spenntan líkama uppá ránni en sú æfing metur einnig jafnvægi viðkomandi. Einnig er notast við nokkrar styrktaræfingar sem eru 5 froskahopp í röð, halda í armbeygjustöðu með kúpt bak og spenntan líkama, ruggubátsstaða þar sem iðkandinn liggur á bakinu með hendur og fætur frá gólfi.

Jafnvægi
Til að meta jafnvægi iðkandans er notast við jafnvægisslánna. Iðkandinn þarf að sýna fram á að hann nái að halda jafnvægi um leið og hann sýnir nokkrar grunnæfingar fimleika á jafnvægisslánni. Iðkandinn þarf að geta farið uppá slánna hjálparlaust, ganga nokkur skref með því að tylla tánni í slánna áður en stígið er í fótinn, standa á öðrum fæti með tá á hné í 5 sekúndur, ganga nokkur skref á tánni með spenntan líkama, ganga nokkur skref í svokölluðum gæsagangi (þá eru fætur bognir og rass hvílir á hælum, beint bak, hendur fram og gengið þannig áfram með fætur saman) og að lokum þarf iðkandinn að hoppa niður af slánni og lenda á fótunum.

Liðleiki
Til að meta liðleika er notast við nokkrar æfingar. Þær eru brú þar sem skoðaður er liðleiki í öxlum, sundur samloka þar sem iðkandi situr á gólfinu með fætur sundur og leggst með kviðinn í gólf, samloka standandi þar sem iðkandi stendur og teygir hendur í gólf, splitt á hægri og vinstri fæti þar sem liðleiki í fótum er skoðaður.

Annað
Iðkandi getur fengið bónusstig fyrir rétta líkamsstöðu, virkni í tímum yfir veturinn ásamt mætingu.

Fimleikar eru einstaklingsbundin íþrótt og æfingar í samræmi við kunnáttu iðkanda. Skipt er í hópa eftir getu. Ástæða fyrir því er að koma í veg fyrir óþarfa álag og meiðsli. Ef iðkendur eru settir í þá stöðu að gera æfingar sem þeir ráða ekki fullkomlega við getur það valdið óþarfa álagi á líkamann og meiðslum. Markmið Fimleikadeildar Stjörnunnar er að þjálfa iðkendur á þeirra eigin forsendum og koma í veg fyrir óþarfa álag á líkamann. Ávallt er reynt að hafa iðkendur saman í hóp sem eru komnir svipað langt því erfitt getur reynst fyrir þjálfara að skipuleggja æfingar þar sem iðkendur eru á mismunandi getustigi.

Dæmi: Iðkendur sem ekki hafa lært arabbastökk eru ekki settir í hóp með iðkendum sem er að undirbúa sig fyrir arabbka-flikk. Arabastökk er handahlaup þar sem fætur lenda saman. Flikk er æfing þar sem hoppað er afturábak og lent á höndum og síðan spyrnt sér á fætur.

Æfingamótið hjá stúlkna grunnhópum deildarinnar er verkfæri deildarinnar til að raða iðkendum í hópa eftir kunnáttu hvers og eins. Sumum kann að finnast hart að getuskipta iðkendum svo snemma á ferlinum en þar sem fimleikar eru mikil tækniíþrótt og iðkendur þurfa mis langan tíma til að ná valdi á æfingunum teljum við það öllum til góðs að iðkendur séu í hópum sem samsvara þeirra þörfum.

Oftar en ekki fáum við að heyra að vinkonur, frænkur eða systur vilji vera saman og að íþróttaiðkunin sé fyrir félagslega þáttinn. Við styðjum það heils hugar og bjóðum því ávallt þeim iðkendum sem óska eftir því að vera saman í hópi að sá iðkandi sem kominn er lengra fái að fylgi iðkandanum sem kominn er styttra til að fyrirbyggja meiðsli. Athugið að það er einnig bundið því að pláss sé í hópnum. Því er ekki hægt að færast upp um hóp á þeim forsendum að vinkona, frænka eða systir sé í hópi sem er kominn lengra.

felagsgj-509x185
ERINDI 5 
 
 
Gestabok
netsofnun
Gardabaer